Fótbolti

Milos eyddi gærkvöldinu með Mancini og Stankovic og stýrir Víkingum ekki annað kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Milos Milojevic var í góðum félagsskap í gærkvöldi.
Milos Milojevic var í góðum félagsskap í gærkvöldi. vísir/getty
Milos Milojevic, þjálfari Pepsi-deildarliðs Víkings, verður ekki á hliðarlínunni þegar Víkingar mæta Grindvíkingum í Lengjubikarnum í Egilshöll annað kvöld.

Milos er staddur í Mílanó sem gestur Internazionale, en heimsókn hans til liðsins er hluti af UEFA Pro þjálfararéttindunum sem hann er að klára.

Serbinn, sem tók einn við sem aðalþjálfari Víkings síðasta sumar þegar Ólafur Þórðarson var rekinn, var á vellinum í gærkvöldi þegar Inter tapaði í undanúrslitum ítalska bikarsins gegn Juventus.

Leikurinn var mikil skemmtun, en eftir að tapa fyrri leiknum í Tórínó, 3-0, vann Inter 3-0 á heimavelli í gær en féll úr leik eftir vítaspyrnukeppni. Hefði Inter komist áfram hefði verið Mílanóslagur í úrslitaviðureigninni.

Eftir leikinn eyddi Milos kvöldinu með þjálfarateymi Inter; Roberto Mancini og Dejan Stankovic. „Magnaður leikur í kvöld en svekkjandi að tapa í vító. Gaman að eyða kvöldinu með herra Mancini og Dejan Stankovic,“ skrifar Milos á Twitter-síðu sína.

Helgi Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Víkings, stýrir liðinu gegn Grindavík annað kvöld. Víkingar eru á toppi riðils þrjú í Lengjubikarnum eftir tvo sigra á 1. deildar liðum HK og Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×