Atlético Madrid minnkaði forskot Barcelona aftur í átta stig með 1-3 útisigri á Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Antoine Griezmann, aðalmarkaskorari Atlético Madrid, skoraði eitt mark og lagði upp annað í leiknum en hin mörkin skoruðu þeir Fernando Torres og Yannick Ferreira Carrasco.
Griezmann kom Atlético Madrid yfir á 24. mínútu en Denis Cheryshev jafnaði metin fyrir Valencia aðeins fjórum mínútum seinna.
Staðan var 1-1 í hálfleik og allt fram á 72. mínútu þegar Torres kom boltanum í markið, níu mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Það var svo annar varamaður, Carrasco, sem gulltryggði sigur Atlético Madrid á 85. mínútu.
Þetta var annað tap Valencia í síðustu þremur leikjum en strákarnir hans Gary Neville eru í 11. sæti deildarinnar með 34 stig.
