Sport

Birkir með á Davis Cup í sjöunda sinn | Strákarnir mættir til Eistlands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í tennis. Talið frá vinstri: Vladimir Ristic, Birkir Gunnarsson, Teitur Marshall og Rafn Kumar Bonifacius.
Íslenska karlalandsliðið í tennis. Talið frá vinstri: Vladimir Ristic, Birkir Gunnarsson, Teitur Marshall og Rafn Kumar Bonifacius. Mynd/Tennissamband Íslands
Íslenska karlalandsliðsliðið í tennis keppir sjöunda árið í röð í Davis Cup og að þessu sinni fer riðill Íslands fram í Eistlandi. Þetta er tímamótakeppni fyrir Ísland því þetta tuttugasta árið í röð sem Ísland tekur þátt í heimsmeistarakeppni tennislandsliða.

Ísland keppir í 3.deild Evrópuriðils sem fer fram í Tallinn í Eistlandi en keppni hefst á miðvikudaginn og stendur fram á laugardaginn.

Íslenska liðið er skipað fjórum leikmönnum sem hafa allir keppt áður á Davis Cup og því er reynsla í íslenska hópnum í ár sem mun örugglega skipta liðið miklu máli.

Teitur Marshall er að keppa á Davis Cup í annað sinn. Rafn Kumar Bonifacius og Vladimir Ristic eru að keppa á Davis Cup í þriðja skipti. Birkir Gunnarsson, sem er spilandi fyrirliði liðsins, er reynslumestur í liðinu og er að keppa í sjöunda skipti á Davis Cup.

Sextán þjóðir keppa auk Íslands og eru: Albanía, Andorra, Armenía, Azerbaijan, Kýpur, Eistland, Makedónía, Grikkland, Írland, Kósóvó, Liechtenstein, Malta, Moldavía, Svartfjallaland og San Marínó.

Keppt er í fjórum fjögurra liða riðlum. Sigurvegarar í hverjum riðli keppa um hvaða tvær þjóðir fara upp í 2.deild á árinu 2016.

Keppnin í Tallin fer öll fram innanhúss og á hörðum völlum. Nú er að sjá hvernig það hentar íslensku tennisstrákunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×