Kínverskur ferðamaður á fertugsaldri lést í fjörunni í dag eftir að alda tók hann með sér í sjóinn.
Viðbragðsaðilar fengu útkall á ellefta tímanum vegna erlenda ferðamannsins í Reynisfjöru sem var þar á ferð ásamt eiginkonu sinni.
„Já, aldan hrifsar einfaldlega manninn með sér eitthvað út á haf. Hann er hér einhverja tvö hundruð metra frá landi þegar björgunarsveitir koma og ná honum upp,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.

„Hér eins og víða annars staðar þurfum við að bregðast einhvern veginn betur við, við þurfum að hafa betri gæslu á hlutunum þannig að við séum ekki að fá þessi slys“.
En hvað vill hann að verði gert?
„Ég vil allavega að við förum að bæta í gæslu, löggæslu, landvörslu og annað þannig að þeir viðbragðsaðilar sem hafa þessum skyldum að gegna að gæta öryggis fólks, að þeir geti það. Að þeir séu ekki endalaust bara neyðarþjónusta“.

„Nei, alls ekki, alls ekki, ég er ekki hlynntur boðum og bönnum heldur vil ég frekar að við höfum meira eftirlit og getum fylgst með því að allt fari rétt og vel fram“, segir Sveinn.
Lögreglan á Suðurlandi hefur áhyggjur af ástandinu í Reynisfjöru og ekki síst vegna þess hversu ferðamann fara óvarlega.
„Mikið af þessu fólki hefur aldrei séð svartar strendur og það hefur aldrei upplifað þessa sterku hafstrauma sem við erum að fá hér við suðurströndina, þannig að ég held að það átti sig ekki bara á því hversu öflugir straumarnir eru,“ segir yfirlögregluþjóninn.