Egyptinn Boutros Boutros-Ghali, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er látinn, 93 ára að aldri.
Hann lést á sjúkrahúsi í egypsku höfuðborginni Kaíró.
Rafael Ramirez, sendiherra Venesúela gagnvart Sameinuðu þjóðanna og núverandi forseti ráðsins, greindi frá þessu við upphafi fundar öryggisráðsins í dag þar sem til stóð að ræða mannúðarkrísuna í Jemen. Boutros-Ghali var að því loknu minnst með einnar mínútu þögn.
Boutros-Ghali var sjötti aðalritari Sameinuðu þjóðanna og gegndi embættinu á árunum 1992 til 1996, og þurfti á þeim tíma meðal annars að fást við mál sem sneru að stríðinu á Balkanskaga og þjóðarmorðunum í Rwanda.
Ganamaðurinn Kofi Annan tók við embættinu af Boutros-Ghali eftir að Bandaríkjastjórn lagðist gegn því að hann sæti annað kjörtímabil.
Hann var menntaður lögfræðingur og starfaði lengi sem professor í þjóðarrétti og alþjóðasamskiptum við háskólann í Kaíró. Þá gegndi hann stöðu utanríkisráðherra Egyptalands á árunum 1978 til 1979.
