Búið er að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Stím-málinu til Hæstaréttar. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. desember síðastliðinn en þá voru þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Sögu Capital, dæmdir í fangelsi fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum.
Var Lárus dæmdur í fimm ára fangelsi, Jóhannes í tveggja ára fangelsi og Þorvaldur Lúðvík í átján mánaða fangelsi. Málið snerist um tæplega 20 milljarða króna lánveitingu sem félagið Stím fékk frá Glitni í nóvember 2007. Var lánið notað til að kaupa hlutabréf í Glitni og FL Group.
