Hann sagði leiðtogum annarra hópa að til greina kæmi að breyta nafni hópsins úr Nusra front, en þeir yrðu hliðhollir al-Qaeda og leiðtoga þeirra Ayman al-Zawahri. Zawahri tók við stjórnartaumunum þegar Bandaríkjamenn felldu Osama Bin Laden árið 2011.
Þetta kemur fram í frétt Reuters, en viðræðurnar mistókust og meðlimir Nusra Front kenna hóp sem ber heitið Ahrar al-Sham, um að slitnað hafi upp úr viðræðunum. Þær eru sagðar hafa átt sér stað fyrir um tíu dögum.
Nokkrum dögum seinna kom til bardaga á milli Nusra front og Ahrar al-Sham og féllu vígamenn beggja vegna. Aðrir uppreisnarhópar miðluðu þó málum þeirra á milli og var vopnahlé samþykkt. Heimildir Reuters segja þó einungis tímaspursmál hvenær í brýna slær á milli þeirra aftur.
Síðast þegar margir uppreisnarhópar mynduðu eina heild, þó tímabundið, unnu þeir einn af sínum stærstu sigrum og hertóku borgina Idlib.
Meðlimir Nusra front saka al-Sham um að vera peð fyrir yfirvöld Tyrklands en al-Sham-liðar vilja að Nusra-menn slíti tengslin á milli sín og al-Qaeda.
Stríð hefur nú geisað í Sýrlandi í tæp fimm ár og um 250 þúsund manns hafa látið lífið og milljónir hafa þurft að yfirgefa heimili sín.
Hér má sjá kort yfir stöðu mála í Sýrlandi sem uppfært er reglulega.