Annað árið í röð munu Listahátíð í Reykjavík og menningarhúsið Mengi hafa samstarf um tónleika á Listahátíð. Fjóra laugardaga í röð stíga á svið konur í tónlist, ýmist á hátindi ferilsins eða að stíga sín fyrstu skref innan tónlistarheimsins.
Í kvöld kemur fram kasakski fiðluleikarinn og tónlistarkonan Aisha Orazbayeva. Aisha mun flytja verk eftir Iannis Xenakis, Simon Steen-Andersen, Helmut Lachenmann og Elvis Presley. Myndbandsverk hennar, RMER, verður einnig flutt við spuna einleiksfiðlu.
Aisha hefur komið víða fram sem einleikari, svo sem á tónlistarhátíðunum Aldeburgh, Radio France et Montpellier, Klangspuren og Latitude og auk þess í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York og La Maison de Radio France í París. Aisha hefur starfað með tónlistarhópum á borð við London Sinfonietta og Ensemble Modern og er einn forsvarsmanna tónlistarhátíðarinnar London Contemporary Music Festival.
Annað kvöld kemur fram Amaranth-dúóið sem samanstendur af Geirþrúði Ásu fiðluleikara og Christopher Ladd gítarleikara. Geirþrúður Ása kemur reglulega fram á tónleikum og tónlistarhátíðum í Evrópu og í Bandaríkjunum bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar. Hinn margverðlaunaði gítarleikari Christopher Ladd er löngu orðinn þekktur í Bandaríkjunum sem einn efnilegasti tónlistarmaður sinnar kynslóðar.
Christopher hefur hlotið fjölda verðlauna í gítarkeppnum, þar á meðal Appalachian Guitar Festival Solo Competition og American String Teachers Assiociation Competition og var tvisvar í úrslitum í hinni virtu keppni Guitar Foundation of America International Competition. Dúettinn stígur á svið klukkan 21.00.
Kasakskur fiðluleikari leikur Elvis Presley
