Í tilkynningu sem félögin sendu frá sér í gær kemur fram að atkvæðagreiðslu um aðgerðirnar eigi að ljúka ekki síðar en 20. maí.
Fram kemur að félögin hafi verið samningslaus í tvo mánuði og enn hilli ekki undir nýjan kjarasamning. Þau vísuðu deilum sínum til ríkissáttasemjara 17. apríl, en viðræður voru árangurslausar og var þeim slitið undir lok apríl.
„Á grundvelli 15. greinar laga númer 80 frá 1938 boða félögin nú til atkvæðagreiðslu um verkföll á félagssvæðum sínum.“

„En viðbrögð atvinnurekenda gagnvart sanngjörnum kröfum okkar eru slík að við eigum engra annarra kosta völ. Atvinnurekendur hafa ekki sýnt vilja til að koma viðræðum í þann farveg að þær skili árangri. Þær aðgerðir sem við greiðum nú atkvæði um eru þannig eina leið okkar til að knýja á um breytingar.“
Forsvarsmenn félaganna segjast telja að stuðningur við fyrirhugaðar aðgerðir sé víðtækur og almennur meðal félagsmanna.
„Markmið okkar er ekki að valda tjóni, heldur leggja áherslu á þær kröfur að jafnræði ríki meðal launafólks í íslensku samfélagi.“ Ekki verði unað við þá stefnu sem ríki og sveitarfélög hafi markað í kjaramálum og valdi auknum ójöfnuði.
„Þessi stefna hefur valdið misvægi í kaupmætti hópa launafólks. Við þetta verður ekki unað.“
Farið er fram á leiðréttingu kjara félagsmanna sem lagt hafi sitt af mörkum við gerð síðustu kjarasamninga og sýnt ábyrgð.
„Við öxlum hins vegar ekki ein ábyrgð á stöðugleika á vinnumarkaði. Það dugar skammt að lýsa yfir góðæri, ef ávinningar stöðugleika eiga einungis að falla í skaut atvinnurekenda en launafólki verði einungis skammtaðar lágmarkshækkanir,“ segir í bréfi formannanna.
Byrjað verður á vinnustöðvunum í tilteknum atvinnugreinum á félagasvæði VR, LÍV og Flóabandalagsins á tímabilinu 28. maí til og með 5. júní. Frá og með 6. júní hefst svo ótímabundið allsherjarverkfall.
