Olgeir bendir á að alltof fá almenningssalerni séu á landsbyggðinni fyrir ferðamenn og að það verði að bæta úr þeim vanda í ljósi aukins ferðamannastraums hér á landi.
„Vandamálið er mun meira á veturna en á sumrin, þá eru sum salerni opin sem ekki eru opin á veturna,“ segir Olgeir og í framhaldi tekur hann dæmi um vinsælar ferðir sem farið er í með ferðamenn.

„Eftir stoppið í Grindavík er farið út á Reykjanesið og helstu staðirnir þar skoðaðir, til dæmis Vaðlahnjúkur, Gunnuhver og brúin milli heimsálfa. Þetta getur tekið um tvo til þrjá tíma og þar er engin salernisaðstaða, hvorki á veturna né á sumrin, og fólk kemst ekki á salernið fyrr en komið er aftur til Reykjavíkur,“ segir Olgeir og bætir við að það bráðvanti salernisaðstöðu fyrir ferðamenn við Seltún, Krýsuvík og á Reykjanesinu sjálfu.
„Þetta er komið í hendur sveitarfélaganna og ég mundi vilja að ráðherra styrkti sveitarfélögin til þess að bæta úr þessu.”

„Ég veit það að úti á Reykjanesi er verið að hefja undirbúning að aðstöðu fyrir ferðamenn, en hún verður reyndar ekki tilbúin í sumar. Við vitum alveg af þessu og reynum að gera hvað við getum til þess að vinna í þessum málum,“ segir Kjartan.
Olgeir tók einnig dæmi um ferðir á Snæfellsnesið og segir vandann einnig mikinn þar, sérstaklega á veturna. „Það er salernisaðstaða á Hótel Búðum en eftir það stopp er næsta salerni á norðanverðu Snæfellsnesi. Þetta þýðir um það bil þrjár klukkustundir án þess að komast á salerni þar sem stoppað er í skoðunarferðir á leiðinni.“