Skoðun

Siðblinda í lífeyrissjóðum

Ólafur Hauksson skrifar

Það lýsir undarlegri siðblindu að lífeyrissjóðir skuli telja sjálfsagt og eðlilegt að skipa menn með óviðfelldinn bakgrunn í stjórnir fyrirtækja í þeirra eigu.

Fyrrum yfirlögfræðingur óþokkafyrirtækisins Dróma er fulltrúi lífeyrissjóðs verslunarmanna í Tryggingamiðstöðinni. Fyrrum forstjóri Icelandair, sem beitti sér ólöglega gegn samkeppni í millilandaflugi, er stjórnarformaður Icelandair Group í boði lífeyrissjóðanna sem eiga fyrirtækið.

Svo virðist sem það þyki sjálfsagt af hálfu lífeyrissjóða að velja þessa menn til trúnaðarstarfa, þrátt fyrir að þeir hafi með störfum sínum beitt sér gegn hagsmunum fólksins sem borgar í þessa sömu lífeyrissjóði.

Ósóminn úr Dróma

Ekki þarf að hafa mörg orð um hvernig Drómi gekk í skrokk á fyrrum viðskiptavinum Spron og Frjálsa. Drómi skar sig úr með ógeðfelldum innheimtuaðgerðum enda fór svo að fyrirtækið var lagt niður. Núna situr fyrrum yfirlögfræðingur Dróma í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar sem fulltrúi fólksins sem Drómi þjösnaðist á.

Lífeyrissjóðirnir sem eiga Icelandair Group hafa um árabil kosið fyrrum forstjóra Icelandair sem stjórnarformann fyrirtækisins. Fyrir þremur árum var Icelandair, dótturfélag Icelandair Group, dæmt til að greiða 80 milljóna króna sekt vegna grófra samkeppnislagabrota í forstjóratíð stjórnarformannsins.

Gegn hagsmunum almennings

Sektin var samt ekki það alvarlegasta. Þessi fyrrum forstjóri Icelandair vann beint gegn hagsmunum eigenda lífeyrissjóðanna með samkeppnislagabrotunum. Undir stjórn hans misnotaði Icelandair markaðsráðandi stöðu sína til að koma í veg fyrir samkeppni í millilandaflugi. Fyrirtækið fórnaði yfir 20 milljarða króna farþegatekjum til að drepa nýjan keppinaut í fæðingu. Icelandair forstjórans vildi ekki að almenningur nyti samkeppni og lægri flugfargjalda í ferðum til útlanda.

Siðblindingjarnir í lífeyrissjóðunum láta sér fátt um finnast. Þrátt fyrir lögbrotin, 80 milljóna króna sektina og hrikalegt tekjutapið er forstjóranum fyrrverandi lyft á stall stjórnarformanns.

Fylgir lesblinda siðblindu?

Það er grátbroslegt í þessu samhengi að lífeyrissjóðirnir hafa sett sér metnaðarfullar siðareglur. Rauði þráður þeirra er samfélagsleg ábyrgð. Mikil áhersla er lögð á góða viðskiptahætti í samræmi við almennt og gott viðskiptasiðferði. Halda mætti að lesblinda fylgdi siðblindu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×