Íslenski boltinn

Elínu Mettu vantar nú bara eitt mark í met Margrétar Láru

Elín Metta Jensen í leiknum í Kórnum í fyrrakvöld.
Elín Metta Jensen í leiknum í Kórnum í fyrrakvöld. Vísir/Ernir
Elín Metta Jensen skoraði tvö mörk í 3-1 sigri 23 ára landsliðs kvenna á Póllandi í fyrrakvöld og vantar því bara eitt mark til að jafna markamet Margrétar Láru Viðarsdóttur yfir flest mörk fyrir yngri landslið Íslands.

Elín Metta hefur nú skorað 29 mörk í 35 leikjum fyrir 17 ára landsliðið (17 mörk í 14 leikjum), 19 ára landsliðið (9 mörk í 19 leikjum) og 23 ára landsliðið (3 mörk í 2 leikjum).

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði á sínum tíma 30 mörk í 43 leikjum fyrir 17 ára landsliðið (6 mörk í 15 leikjum), 19 ára landsliðið (13 mörk í 15 leikjum) og 21 árs landsliðið (11 mörk í 13 leikjum). Margrét Lára hefur síðan bætt við 71 marki fyrir íslenska A-landsliðið og það met er öllu öruggara en metið hennar í markaskorun fyrir yngri landsliðin.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir er þriðja á listanum með 28 mörk í 28 leikjum fyrir yngri landsliðin og Greta Mjöll Samúelsdóttir skoraði á sínum tíma 20 mörk í 34 leikjum með yngri landsliðunum.

Elín Metta verður tvítug á þessu ári og hefur því enn tíma til að bæta við metið sitt en það er hins vegar óvíst hvort verða fleiri verkefni hjá 21 árs og 23 ára liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×