Gary Neville bíður enn eftir sínum fyrsta deildarsigri sem knattspyrnustjóri Valencia en liðið beið lægri hlut, 1-0, fyrir Villarreal í dag. Þetta var síðasti leikur ársins í spænsku úrvalsdeildinni.
Bruno skoraði eina mark leiksins á 64. mínútu. Villarreal hefur unnið fjóra leiki í röð og er í góðum málum í 4. sæti spænsku deildarinnar.
Það gengur ekki jafnvel hjá Valencia sem er í 10. sæti deildarinnar og hefur ekki unnið leik síðan 7. nóvember.
Neville tók við Valencia í byrjun mánaðarins en liðið hefur aðeins unnið einn leik af fimm undir hans stjórn; bikarleik gegn C-deildarliði Barakaldo.