Framherjinn Brynjar Jónasson er genginn í raðir Þróttar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Brynjar, sem er 21 árs, kemur til Þróttar frá Fjarðabyggð þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil. Þróttur endaði í 2. sæti 1. deildar í fyrra og leikur því í Pepsi-deildinni á næsta ári, í fyrsta sinn síðan 2009.
Brynjar skoraði níu mörk í 21 leik í 1. deildinni í sumar og 19 í 22 leikjum í 2. deildinni í fyrra. Hann hefur alls gert 30 mörk í 48 leikjum í deild og bikar hér á landi.
Brynjar þekkir vel til aðstoðarþjálfara Þróttar, Brynjars Gestssonar, en hann þjálfaði hann hjá Fjarðabyggð 2014 og 2015. Þeir eru nú sameinaðir á ný í Laugardalnum.
Brynjar, sem er uppalinn hjá FH, er annar framherjinn sem Þróttur fær til sín í vetur en áður hafði Emil Atlason gert samning við félagið.
Sjá einnig: Ryder þjálfar Þrótt til ársins 2017
Þá hafa tveir ungir og efnilegir leikmenn skrifað undir þriggja ára samning við Þrótt; Júlíus Óskar Ólafsson og Aron Dagur Heiðarsson. Sá síðarnefndi er sonur Heiðars Helgusonar, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmanns.
