Líf hefur ekki viljað tjá sig um deilur þeirra Sóleyjar og atburði gærkvöldsins þar sem Sóley var kosin formaður. Sex sátu hjá í kosningu borgarfulltrúanna sem er fáheyrt þegar um breytingar innan einstakra flokka er að ræða.
„Síðasta sólarhringinn hefur verið fjallað mikið um skipan Sóleyjar Tómasdóttur sem formanns mannréttindaráðs í minn stað. Ég hef ekki viljað tjá mig um þessa ákvörðun Sóleyjar enda hlýtur það að vera hennar að útskýra hana,“ segir Líf í færslu á Facebook. Fyrir henni horfi málið svona við:
„Það sem er gert er gert. Núna skiptir mestu að við horfum fram á veginn og stöndum saman um að vinna að málum Vinstri-grænna í borginni og höfum áhrif til góðs fyrir íbúa og umhverfi. Innanflokksátök um persónur hjálpa okkur ekki við það.“
Lagt hefur verið til að vinnusálfræðingur verði fenginn til þess að leita sátta í deilum Lífar og Sóleyjar. Ekki hefur þó komið til fundar með sálfræðingnum enn sem komið er. Sóley er stödd á loftslagsráðstefnunni í París.

Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna, virðist ekki ætla að blanda sér í deilur flokksystra sinna, ekki í fjölmiðlum hið minnsta.
Hún sagði í samtali við Vísi í dag hafa verið upplýst um ákvörðun Sóleyjar að taka yfir formannsstöðuna í mannréttindaráði en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.