Fótbolti

Vill ekki neyða Shaw til að horfa á leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luke Shaw borinn af velli eftir að hafa fótbrotnað.
Luke Shaw borinn af velli eftir að hafa fótbrotnað. Vísir/Getty
Louis van Gaal, stjóri Manchester United, ákvað að gefa bakverðinum Luke Shaw frí þessa vikuna svo hann þyrfti ekki að endurupplifa slæmt fótbrot sitt frá því í leik liðsins gegn PSV.

Liðin mætast aftur í Meistaradeild Evrópu í kvöld en Van Gaal hefur haft þá reglu að allir leikmenn mæti á leiki liðsins, hvort sem þeir eru meiddir eða ekki. Þeir eigi að sýna félögum sínum stuðning.

Sjá einnig: Luke Shaw fótbrotnaði í Eindhoven

„Endurhæfing Luke gengur vel en maður veit aldrei með svona meiðsli,“ sagði Van Gaal. „Ein slæm vika getur kostað menn marga mánuði.“

„Hann hefur verið duglegur í endurhæfingunni en er ef til vill orðinn þreyttur enda dagarnir flestir eins. Kannski hugnaðist honum heldur ekki að horfa á leikinn gegn PSV með félögum sínum þannig að ég ákvað að gefa honum frí. Hann fer svo í myndatöku á föstudag og þá vitum við meira um meiðslin hans.“

Sjá einnig: Luke Shaw fær kveðjur frá samherjum og öðrum

Shaw fótbrotnaði eftir tæklingu Hector Moreno en Van Gaal telur að um óviljaverk hafi verið að ræða. Hann reiknar ekki með því að leikmenn United vilji hefna félaga síns. „Ég hef margsinnis sagt að þetta var ekki viljaverk. Svona getur gerst í fótbolta og þetta er ekki í fyrsta sinn sem einhver fótbrotnar í leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×