Viðskipti innlent

Sagði Stím-kaupin vera óverjandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá þinghaldi í héraðsdómi í svokölluðu Stím-máli.
Frá þinghaldi í héraðsdómi í svokölluðu Stím-máli. Fréttablaðið/Stefán
Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, segist hafa haft frumkvæði að því að hann nýtur friðhelgi í Stím-málinu hvað varðar saksókn. Þetta kom fram í vitnaleiðslum yfir honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Magnús var ósáttur við kaup eins fagfjárfestasjóðs Glitnis á skuldabréfi sem útgefið var af Stím og tilkomið vegna eins milljarðs króna láns Sögu Capital til félagsins. Hann hefði þrátt fyrir þetta keypt bréfið samkvæmt fyrirmælum frá Jóhannesi Baldurssyni, yfirmanni sínum, sem ákærður er fyrir umboðssvik vegna skuldabréfsins, og bar Magnús í raun vitni gegn honum.

Magnús kvaðst upphaflega hafa ætlað að verjast því ef skuldabréfakaupin kæmu til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Hann gerði það í fyrstu tveimur yfirheyrslunum hjá embættinu síðla árs árið 2010 en eftir yfirheyrslu 2011 breyttist staðan: „Ég var kominn út í horn. Það var ekki hægt að verja kaupin á þessu skuldabréfi, það var ekki séns.“

Hann ákvað svo að „hætta þessu rugli“, eins og hann orðaði það.

„Svo ég óska eftir fundi með sérstökum og tilkynni þeim að ég ætli að leggja spilin á borðið. Ég óskaði eftir friðhelgi ef það væri mögulegt en það var ekki skilyrði.“


Tengdar fréttir

„Þú verður bara að segja að ég hafi sagt þér að gera þetta“

Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, er lykilvitni í Stím-málinu en hann breytti framburði sínum í yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara og veitti embættinu upplýsingar gegn því að hann nyti friðhelgi frá saksókn í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×