Viðskipti innlent

Minnið brást vitnum í Stím-málinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson eru á meðal vitna í Stím-málinu.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson eru á meðal vitna í Stím-málinu. vísir/valli/gva
Mikill fjöldi vitna er kallaður til í Stím-málinu en aðalmeðferð þess fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Á meðal þeirra sem hafa gefið skýrslu í dag eru Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Jón Ásgeir Jóhannesson sem var stjórnarformaður FL Group, stærsta eiganda Glitnis.

Í málinu er fyrrverandi forstjóri Glitnis, Lárus Welding, ákærður fyrir umboðssvik vegna 20 milljarða króna láns bankans til Stím en peningurinn var notaður til að kaupa hlutabréf af Glitni í bankanum sjálfum og FL Group. Lánið var veitt í nóvember 2007.

Auk Lárusar eru þeir Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Sögu Capital, ákærðir vegna kaupa og sölu á skuldabréfi sem útgefið var af Stím í ágúst 2008.

Ekki boðið að vera kjölfestufjárfestir

Bæði Þorsteinn og Jón Ásgeir gáfu símaskýrslu. Þorsteinn var spurður út í það hvort að Samherja hafi verið boðið að taka þátt í stofnun Stím og vera svokallaður kjölfestufjárfestir. 

Þorsteinn sagði orðið kjölfestufjárfestir vera rangt en það væri hins vegar ljóst að Samherja hafi verið gefinn kostur á að taka þátt í þessari fjárfestingunni.

Þorsteinn mundi hins vegar ekki hver það var sem hafði samband við hann vegna málsins og skömmu síðar sagði hann spurningar saksóknara „fráleitar þar sem hann væri að spyrja um hluti sem hefðu gerst fyrir átta til níu árum síðan. Hann gat þó svarað þeirri spurningu frá verjanda að ekki hefðu verið aðrar forsendur en viðskiptalegar að baki því tilboði sem Samherji fékk á sínum tíma varðandi þátttöku í Stím.



Man ekki hvort hann var stjórnarformaður FL Group

Jón Ásgeir gaf svo skýrslu og var fyrst spurður að því hvort að hann hafi verið stjórnarformaður í FL Group í nóvember 2007.

Kvaðst Jón Ásgeir ekki muna það en sagði vissulega rétt að á þessum tíma hafi FL Group verið stærsti eigandi Glitnis. Þess má þó geta í þessu samhengi að Jón Ásgeir var stjórnarformaður FL Group frá júní 2007 og þar til í júní 2008.

Aðspurður sagðist Jón Ásgeir ekki hafa haft neina aðkomu að Stím-viðskiptunum og kvaðst ekki muna eftir því að hafa verið í því að finna hluthafa inn í Stím. Þá var Jón Ásgeir spurður að því hvort hann hafi verið í samskiptum við Lárus Welding á þessum tíma og svaraði:

Ekki man ég eftir því, nei.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×