Viðskipti innlent

Pálmi Haraldsson með réttarstöðu sakbornings: „Þú segir mér fréttir“

Birgir Olgeirsson skrifar
Pálmi Haraldsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.
Pálmi Haraldsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Vísir/Daníel
Aðalmeðferð í Stím-málinu var framhaldið í morgun og var kallaður til vitnaleiðslu fjárfestirinn Pálmi Haraldsson. Áður en vitnaleiðslurnar yfir Pálma hófust fór Símon Sigvaldason dómsformaður yfir réttindi Pálma í dómsal og tilkynnti honum um leið að samkvæmt upplýsingum sem hann byggi yfir væri Pálmi með réttarstöðu sakbornings í máli sem er til rannsóknar.

Þessar upplýsingar komu Pálma í opna skjöldu sem svaraði á móti: „Þú segir mér fréttir.“ Málið er sótt af Hólmsteini Gauta Sigurðssyni fyrir embætti sérstaks saksóknara. Símon spurði Hólmstein hvort það væri rétt að Pálmi væri með réttarstöðu sakbornings og svaraði Hólmsteinn því að samkvæmt hans upplýsingum væri það rétt.

Var þá Pálma tilkynnt að ef svör hans við spurningum saksóknara í Stím-málinu gætu mögulega varpað á hann sök í öðrum málum mætti hann neita að svara.

Vísir hafði samband við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, sem sagðist engar upplýsingar geta veitt um málið.

Svipuð atburðarás átti sér stað í í gær þegar vitnaleiðslur yfir Þorsteini Má Baldvinssyni fóru fram í Stím-málinu. Þá var Þorsteini Má tilkynnt að hann væri með réttarstöðu sakbornings í öðru máli tengt rannsókn embættis sérstaks saksóknara. Sjá hér.

Í Stím-málinu eru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, ákærður ásamt þeim Jóhannesi Baldurssyni, einum stjórnenda bankans, og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, fyrrverandi forstjóri Saga Capital, fyrir lánveitingar Glitnis til hlutabréfakaupa í Glitni og FLGroup. Mennirnir neita allir sök.

Forsaga málsins er sú að félagið Stím fékk tæplega 20 milljarða króna að láni frá Glitni til að kaupa hlutabréf í Glitni og FLGroup í nóvember árið 2007. Seljandi bréfanna var Glitnir en um var að ræða rúmlega 4 prósenta hlut í hvoru tilfelli. Veðin fyrir láni Stíms voru í hlutabréfunum í FLGroup.


Tengdar fréttir

Sagði Stím-kaupin vera óverjandi

Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, segist hafa haft frumkvæði að því að hann nýtur friðhelgi í Stím-málinu hvað varðar saksókn. Þetta kom fram í vitnaleiðslum yfir honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×