Innlent

Ekki bjartsýn á að allsherjarverkfalli verði afstýrt

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Formenn LL, SLFÍ og SFR á fundi í Karphúsinu.
Formenn LL, SLFÍ og SFR á fundi í Karphúsinu. Vísir/GVA
Allt kapp er nú lagt á að afstýra allsherjarverkfalli sem að skellur á að óbreyttu á fimmtudag. Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir ekki bjartsýn á að það takist. Fundi deiluaðila lauk á þriðja tímanum í nótt.

„Þetta strandar bara á þessum sömu málum. Þetta gengur allt mjög hægt þannig að við sjáum í raun og veru ekki framvinduna varðandi daginn í dag eins og staðan er núna,“ segir Kristín.

Samninganefndir SFR, sjúkraliða og lögreglumanna hafa fundað hvert í sínu lagi í morgun en samningafundur deilenda við ríkissáttasemjara hófst um klukkan eitt í dag. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR stéttarfélags, segir samninganefndirnar nú reyna við erfiðasta hjalla viðræðnanna, en bindur vonir við að samningar takist fyrir  fimmtudag.

„Við tókum næturfund því við vorum á ágætu róli. Það er oft þannig að það hrúgast svona erfiðustu bitarnir í lokin, en þeir voru of stórir til að við næðum að leysa þá í nótt,“ segir Árni.

Hann segir að meðal annars sé unnið að því að útfæra launaliði félaganna þriggja. „Hann er ekki alveg kominn hjá öllum, en hann er svona eitt af því sem við erum ekki alveg að ná samkomulagi um.“

Þá segir hann að unnið sé hörðum höndum að því að ná samningum sem fyrst. Aftur verði fundað fram á nótt, verði þess þörf. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná samningum fyrir fimmtudag. En maður auðvitað veit aldrei hvað kemur upp í svona viðræðum,“ útskýrir Árni.

Verkfall sjúkraliða á Landspítalanum og heilbrigðisstofnunum Suðurnesja og Austurlands hófst á ný klukkan átta í morgun og stendur til fjögur. Næsta stóra verkfallslota SFR og sjúkraliða hefst svo á fimmtudag.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir að verkföll haldi áfram

Útlit er fyrir að verkföll sjúkraliða og SFR-félaga haldi áfram á morgun. Þrátt fyrir stíf fundarhöld í Karphúsinu alla helgina virðist enn nokkuð í að samkomulag náist um nýja kjarasamninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×