Evrópusambandið hefur breytt reglum sínum um viðskipti með selaafurðir þannig að þær standast nú reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).
Á heimasíðu ráðherraráðs ESB kemur fram að WTO hafi úrskurðað í júní á síðasta ári að reglur ESB stæðust reglur WTO, að frátöldum tveimur ákvæðum sem brytu í bága við reglur um að ekki megi mismuna í viðskiptum.
Með nýjum reglum sambandsins er tekið á þessu þar sem annað ákvæðið er fellt úr gildi og gerðar breytingar á hinu.
Kanadísk og norsk stjórnvöld kærðu selabann ESB til WTO fyrir fjórum árum, þegar reglur ESB, sem tóku gildi 2009, meinuðu ríkjunum að selja selaafurðir til aðildarríkja sambandsins.
Nánar má lesa um breytingarnar á síðu ESB.

