Viðskipti erlent

Hæstu stýrivextir í þrjá­tíu ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Ríkissjóður Japan er einn sá skuldsettasti meðal svokallaðra þróaðra ríkja.
Ríkissjóður Japan er einn sá skuldsettasti meðal svokallaðra þróaðra ríkja. AP/Eugene Hoshiko

Seðlabanki Japan hækkaði stýrivexti þar í landi í morgun og hafa þeir ekki verið hærri í þrjá áratugi. Verðbólga hefur verið nokkur í Japan, jenið hefur veikst gegn dollaranum og kaupmáttur hefur dregist saman.

Stýrivextirnir voru hækkaðir um fjórðung úr prósentustigi eða úr 0,5 prósentum í 0,75 prósent. Greinendur og fjárfestar höfðu búist við þessari ákvörðun, samkvæmt frétt Japan Times.

Þetta er þó í fyrsta sinn frá árinu 1995 sem stýrivextir fara upp fyrir 0,5 prósent.

Í yfirlýsingu frá peningastefnunefnd Japan segir að óvissa vegna tolla Trumps hafi minnkað og að forsvarsmenn fyrirtækja í Japan séu enn á þeim nótum að hækka laun á næsta ári. Nefndin segist einnig tilbúin til að hækka vexti frekar í framtíðinni.

Samkvæmt frétt New York Times þykir einnig líklegt að hækkunina megi rekja til ætlunar stjórnvalda í Japan um að auka verulega fjárútlát ríkisins til að ýta undir hagvöxt. Ríkissjóður Japan er þegar töluvert skuldsettur.

Skuldir ríkissjóðs eru rúmlega tvöföld verg landsframleiðsla ríkisins.

Sanae Takaichi, forsætisráðherra Japan, hefur samþykkt 117 milljarða dala útgjaldapakka sem ætlað er að nota til hergagnakaupa, fjárfestinga í innviðum og skipasmíði og til að draga úr útgjöldum heimila.

Rúmlega helmingurinn af þessum pakka verður fjármagnaður með lánum.

Sérfræðingar sem ræddu við NYT segja líklegt að pakkinn muni auka vöxt en hann muni gera stöðu ríkissjóðs Japan töluvert verri. Óvissa um framtíðina muni aukast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×