Erlent

Flóttafólkinu verður skipt milli ríkja ESB

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk bíður skráningar í búðum í Makedóníu, rétt við landamæri Grikklands.
Flóttafólk bíður skráningar í búðum í Makedóníu, rétt við landamæri Grikklands. NordicPhotos/AFP
Aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur gengið heldur illa að koma sér saman um flóttamannakvóta, þar sem hvert ríki tæki við ákveðnum fjölda flóttamanna í samræmi við fólksfjölda og efnahagsástand viðtökulandsins.

Á fundi innanríkisráðherra aðildarríkjanna í gær var samt tekin ákvörðun um að tekið verði við 120 þúsund flóttamönnum, til viðbótar við þá 40 þúsund sem áður var búið að semja um.

Ríkin í austanverðri álfunni hafa verið treg til að vera með í þessu, en reynt verður að leysa úr deilunni á óformlegum leiðtogafundi í Brussel í kvöld.

Harðasta andstaðan kemur frá Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Rúmeníu. Þessi ríki stóðu ekki að samkomulaginu sem tókst á fundi innanríkisráðherranna í gær.

Ekkert samkomulag hafði náðst á fundi fastafulltrúa aðildarríkjanna í gær, og utanríkisráðherrum austur-evrópsku aðildarríkjanna tókst heldur ekki að finna neina lausn á sínum fundi á mánudaginn.

Til þess að liðka fyrir var ein hugmyndin sú að ríkin fái greiddar 6.000 evrur frá Evrópusambandinu fyrir hvern flóttamann, sem þau taka við. Þetta samsvarar um það bil 860 þúsund krónum. Þau ríki, sem neita að taka við flóttafólki samkvæmt kvótaskiptingunni, gætu á hinn bóginn þurft að greiða 6.500 evrur til Evrópusambandsins.

Þýskaland reiknar með að taka við 800 þúsund flóttamönnum á þessu ári og hugsanlega enn fleiri á næsta ári.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, sendi frá sér skýrslu í gær þar sem minnt er á að Þjóðverjar hafi tekið við þremur milljónum manna frá fyrrverandi austantjaldsríkjum á síðasta áratug 20. aldarinnar, eftir að Berlínarmúrinn féll og þýsku ríkin tvö sameinuðust.

Þá hafi Þjóðverjar um sama leyti tekið við nærri 400 þúsund flóttamönnum frá Bosníu og Kosovo, þegar stríðsátökin þar stóðu sem hæst.

Árið 1992, þegar Bosníustríðið var að hefjast, flúðu 630 þúsund manns þaðan til annarra ríkja Evrópu, en á þessu ári hafa meira en 700 þúsund flóttamenn leitað hælis í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Flestir þeirra koma frá Sýrlandi, yfir landamærin til Tyrklands og þaðan yfir hafið til Grikklands og svo áfram norður Balkanskaga.

„Þetta gengur ekkert án stuðnings frá Tyrklandi,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari í gær, en hún hyggst nú hefja nánara samstarf við Tyrkland í málefnum flóttamanna.


Tengdar fréttir

Öll hjálp frá Íslandi myndi skipta máli

Fari svo að Ísland bjóði til sín kvótaflóttafólki verða þeir líklega valdir úr hópi sýrlenskra flóttamanna í Líbanon. Tveir íslenskir þingmenn kynntu sér stöðu mála í Líbanon og segja flóttamenn þar afar vonlitla.

Segja flóttamennina ógna Evrópu

Ungverska hernum hefur verið veitt aukið vald gegn flóttafólki sem reynir að komast ólöglega til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×