„Allir sem komu frá Sýrlandi yfir til Líbanon, sem eru þeirar næstu nágrannar, héldu að þetta yrði bara stutt, ætluðu bara rétta að bíða þetta af sér og fara svo aftur heim. Svo bíður fólk í einn mánuð í viðbót, og einn mánuð í viðbót, og svo eru liðin 4-5 ár. Þá hugsar fólk bara hér er engin von. Ástandið í Sýrlandi er ekki að lagast þannig að ég þarf að gera eitthvað annnað. Og þá fer fólk í bátana, reynir að komast til Tyrklands og þaðan í bát.“

Íslensku þingmennirnir hittu einmitt sýrlenska fjölskyldu sem hafði gefist upp og var faðirinn, sá eini með vegabréf, á leið á undan konu og börnum til Tyrklands í von um að komast til Evrópu og geta þar búið þeim nýtt heimili, ef hann lifir ferðina af.
„Við vorum einmitt að spyrja, hvernig maður tekur svona ákvörðun, en þau segja bara: Hér er engin von, það er ekkert að lagast í Sýrlandi, þannig að við komumst ekki heim, við verðum að finna einhverja leið og getum alveg eins prófað þetta eins og að vera hér í ömurlegheitum.“

Þingmennirnir heimsóttu skrifstofu flóttamannastofnunar sem undirbýr kvóttaflóttamenn fyrir brottför til Evrópu. Unnur Brá bendir á að af einni og hálfri milljón Sýrlendinga í Líbanon hafi aðeins 9000 komist burt sem kvótaflóttamenn. Alls eru um 2 milljónir flóttafólks við bágan kost í Líbanon, sem er á við hálfa líbönsku þjóðina. Innviðirnir eru að gefa sig undan álaginu og segir Unnur Brá að það muni því um hvern einn og einasta sem boðin er hjálp.
„Segjum ef að Ísland myndu ákveða að taka kvótaflóttamenn frá Líbanon, sýrlenska, þá er í rauninni sama hvaða tala það væri, þá værum við að gera mjög mikið. Allt sem við getum gert væri mjög mikilvægt og miðað við hvað kerfið þarna er orðið þanið að það ræður ekki við þennan fólksfjölda þá er mjög nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið taki fólk og bjóði því að koma frá Líbanon.“
Unnur Brá segir að þau Óttarr Proppé snúi heim með mikið af hugmyndum og ábendingum í farteskinu um hvað Ísland geti gert til að hjálpa. Hún blæs á gagnrýni um að íslenskir embættismenn eigi ekkert erindi í slíka ferð.
„Valið hjá mér, af því ég er hér sem Evrópuráðsþingmaður, að fara og sitja fundi um þessi mál eða einhver önnur mál með nefndum evrópuráðsþinsins einhvers staðar í Evrópu, mér fannst þetta vera líklegra til að skila mér þeim upplýsingum sem ég þarf til að geta verið sterkari í umræðunni um þessi mál og það er svo sannarlega mitt mat að það hafi skilað sér.“