Undanfarin þrjú ár hefur Sýrland verið rifið í sundur vegna stríðsátaka þar í landi. Uppgangur ISIS innan Sýrlands og sá hrottagangur sem ISIS fylgir veldur mönnum miklum áhyggjum en það er vin í eyðimörkinni. Rojava er hérað við landamæri Tyrklands og Sýrlands og þar hefur mönnum tekist að skapa tiltölulega lýðræðislegt og friðsælt samfélag. Það er bara einn galli, rafmagnsleysi, en því á að bjarga með hópfjármögnun.
Rafmagn héraðsins kemur frá rafölum en þeir liggja undir skemmdum, bæði vegna árása frá ISIS en einnig vegna þess að erfitt reynist að koma varahlutum inn í héraðið. Sænskir velunnarar Rojava hafa því hafið herferð til að hópfjármagna varahluti í rafalana sem framleiða rafmagn fyrir um 800 heimili. Nú þegar 12 dagar eru eftir af herferðinni hafa safnast um 18.000 dollarar af þeim 23.000 sem er markmið söfnunarinnar.
Í Rojava búa um fjórar milljónir og tókst herafla þeirra að hrekja burt herlið Assad Sýrlandsforseta árið 2011, auk þess sem að herliðið hefur haldið ISIS í skefjum. Daglegt líf í héraðinu er friðsælt og stjórnarskrá héraðins tryggir það að sýslur þess verði að kjósa einn fulltrúa Kúrda, einn fulltrúa Araba og einn fulltrúa Kristna í þriggja manna stjórn sýslanna og einn fulltrúanna verður að vera kona.
