Erlent

Trump fær ekki að halda ræðu vegna ummæla sinna um konur

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Bandaríski auðjöfurinn Donald Trump fær ekki að flytja ræðu á fjölmennri ráðstefnu fyrir bandaríska íhaldsmenn vegna ummæla sinna í kjölfar kappræða Repúblikana sem fram fóru á fimmtudag.

Trump átti að vera einn aðalræðumanna á ráðstefnu hópsins Red State síðar í dag, en ummæli Trump um Megyn Kelly, einn spyrlanna í kappræðunum, fengu skipuleggjendur ráðstefnunnar til að draga boð sitt til baka.

„Ég hef reynt að veita honum stórt pláss en hann gekk of langt með ummælum sínum um Megyn Kelly,“ segir Erick Erickson frá Red State.

Á meðan á kappræðunum stóð neitaði hann að biðjast afsökunar á orðum sínum um konur, en hann hefur áður kallað ýmsar konur sem honum líkar ekki við „feit svín“, „hunda“, „druslur“ og „ógeðsleg dýr“. Sagðist hann ekki hafa tíma fyrir pólitíska rétthugsun. Að kappræðum loknum sagði Trump að spurningar Kelly mættu ef til vill rekja til hormónastarfsemi hennar.

Red State hefur nú boðið Kelly til að taka þátt í ráðstefnunni.

Trump hefur mælst með mest fylgi í skoðanakönnunum á meðal þeirra sem hafa boðið sig fram til að verða forsetaefni Repúblikana.


Tengdar fréttir

Diguryrðin yfirgnæfðu

Donald Trump tryggði sér mestu athyglina í sjónvarpskappræðum tíu repúblikana, sem allir keppa að því að verða forsetaefni flokks síns á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×