Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka á móti fimmtíu flóttamönnum til að létta á miklum straumi flóttamanna til Grikklands og Ítalíu. Fólkið kemur frá Sýrlandi, Eritreu, Írak og Sómalíu og er undirbúningur fyrir móttöku þess þegar hafinn í félagsmálaráðuneytinu.
Ráðherrar Evrópusambandsríkjanna komust að samkomulagi á fundi þeirra í Brussel í gær um flutning rúmlega þrjátíu og tvö þúsund flóttamanna frá Ítalíu og Grikklandi til annarra Evrópusambandsríkja í október næstkomandi. Löndin tvö eru að þolmörkum komin og var því lögð fram áætlun til að létta á vanda þeirra í apríl síðastliðnum. Ísland var ekki hluti af þeirri áætlun.
Matthías Imsland, aðstoðarmaður velferðarráðherra, segir viðræður við Schengen-löndin nýlega hafa hafist. Um sé að ræða alþjóðlegt vandamál sem allar þjóðir heims þurfi að takast á við.
„Ísland er þarna að skuldbinda sig til að taka þátt í þessu með fyrirvara um að það fáist visst fjármagn frá Alþingi, en Ísland er þarna eins og aðrar Schengen þjóðir að leggja sitt af mörkum til að taka á móti einhverjum hópum og stuðla að lausn á þessu alþjóðlega vandamáli,” segir hann.
Ákvörðunin var tekin í samráði við flóttamannaráð og áætlað er að tekið verði á móti fólkinu á tveggja ára tímabili, frá og með október næstkomandi.
„Þessi yfirlýsing er mjög í anda þeirrar stefnumótunar sem hefur verið í flóttamannaráði sem er starfandi í ráðuneytinu. Það er þannig að það hefur verið gert ráð fyrir að taka á móti allt að 25 flóttamönnum á ári svoleiðis að undirbúningur er hafinn.”
Hvaða sveitarfélög koma til með að taka á móti fólkinu?
„Það liggur ekki fyrir hvaða sveitarfélög munu taka á móti flóttamönnunum. Reykjavík hefur náttúrulega verið duglegust að taka á móti flóttamönnum undanfarin ár en það eru fleiri sveitarfélög sem hafa verið að taka á móti flóttamönnum líka. Til dæmis Hafnarfjörður tók á móti hóp í fyrra,” segir Matthías.
Verulega dró úr móttöku á flóttafólki eftir hrun, en frá árinu 2010 hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 39 einstaklingum, eða að meðaltali átta einstaklingum á ári. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir því að íslensk stjórnvöld taki á móti fleira fólki.
Þýskaland mun taka við flestum flóttamönnum, eða um tólf þúsund manns, og Frakkar níu þúsund manns. Austurríki og Ungverjaland neituðu að taka á móti flóttafólki.
