Erlent

Mikilvæg atkvæðagreiðsla á gríska þinginu í kvöld

Heimir Már Pétursson skrifar
Alexis Tsipras forsætisráðherra reynir að koma aga á þá stjórnarþingmenn sem ekki fylgdu honum að málum við atkvæðagreiðslu í síðustu viku.
Alexis Tsipras forsætisráðherra reynir að koma aga á þá stjórnarþingmenn sem ekki fylgdu honum að málum við atkvæðagreiðslu í síðustu viku. vísir/afp
Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands reynir nú að koma aga á þá þingmenn sem ýmist sátu hjá eða greiddu atkvæði gegn frumvörpum í tengslum við björgunarpakka Evrópu í síðustu viku. En í kvöld fara fram umræður og mikilvæg atkvæðagreiðsla í gríska þinginu um önnur frumvörp sem samþykkja þarf áður en formlegar viðræður geta hafist við Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um framkvæmd 86 milljarða evra aðstoðar við landið.

Í atkvæðagreiðslunni í síðustu viku greiddu 32 þingmenn stjórnarflokksins Syriza atkvæði gegn nauðsynlegum frumvörpum og sex sátu hjá. Tsipras segist hafa heyrt margar hetjulegar ræður frá þessum hópi en engar tillögur um hvað beri að gera annað til að bjarga Grikkjum út úr kreppunni.

Ekki er útilokað að Tsipras boði til kosninga innan tíðar og telja stjórnmálaskýrendur nánast öruggt að hann muni vinna sigur, aðallega vegna þess að stjórnarandstöðuflokkarnir eru í tætlum, en einnig vegna persónulegs fylgis Tsipras á meðal kjósenda. Hann gæti notað kosningarnar til að losa sig við þann hluta þingmanna flokksins sem ekki fylgja honum að málum. Helstu stjórnarandstöðuflokkar leggjast gegn kosningum en síðast var kosið í Grikklandi í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×