Fótbolti

Deila vildi blautan völl: Vatnslögnin sprakk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pablo Punyed á fullri ferð á skraufaþurru gervigrasinu í kvöld.
Pablo Punyed á fullri ferð á skraufaþurru gervigrasinu í kvöld. vísir/andri marinó
Celtic vann í kvöld Stjörnuna, 4-1, og 6-1 samanlagt í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Leikurinn fór fram á Samsung-vellinum í Garðabæ en fyrir leikinn í kvöld fékk gervigrasvöllur Stjörnumanna mikla athygli í skoskum fjölmiðlum.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, gantaðist með það á blaðamannafundi fyrir leikinn að völlurinn yrði ekki vökvaður enda hafði vatnslögn sprungið í bænum.

Svo fór að völlurinn var ekki vökvaður og Ronny Deila, þjálfari Celtic, segir að það hefði gerbreytt leiknum.

„Það var erfitt að meta frammistöðu leikmanna því það er erfitt að spila á þurrum gervigrasvelli. Það hægir mikið á leiknum,“ sagði Deila á blaðamannafundinum í kvöld.

„við vorum kærulausir í upphafi leiks og stressaðir í fyrri hálfleik. En við fengum markið og töluðum um það í hálfleik að við þyrftum að bæta hraðann í síðari hálfleik.“

„Það var bara eitt lið á vellinum í seinni hálfleik og við unnum nokkuð þægilegan sigur þegar uppi var staðið.“

Deila segir að Celtic-menn hafi beðið um að láta vökva völlinn. „Ég geri það alltaf, hvert sem við förum. En það var bilað í þetta skiptið.“

Hvað var bilað? „Vatnslögnin var biluð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×