Körfubolti

Stelpurnar töpuðu á flautukörfu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, leikmaður Íslands, skoraði sex stig í leiknum.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, leikmaður Íslands, skoraði sex stig í leiknum. vísir/andri marinó
Ísland mátti þola naumt tap gegn Finnlandi, 78-76, á æfingamóti sem staðið hefur yfir í Danmörku síðustu daga.

Finnar tryggðu sér sigur með flautukörfu en áður hafði Bryndís Guðmundsdóttir jafnað metin á vítalínunni þegar tíu sekúndur voru til leiksloka.

Ísland byrjaði leikinn af miklum krafti og var með forystu í hálfleik, 45-33, eftir að hafa haldið finnska liðinu í aðeins tíu stigum í öðrum leikhluta.

Finnar náðu sér betur á strik í síðari hálfleik en engu að síður var forysta Íslands ellefu stig þegar fjórði leikhluti hófst, 64-53.

Finnarnir voru fljótir að saxa á forystu Íslands og síðustu mínúturnar voru jafnar og spennandi. Finnland komst fyrst yfir þegar 20 sekúndur voru eftir, 76-74, og reyndust svo sterkari í blálokin sem fyrr segir.

Helena Sverrisdóttir var stigahæst hjá Íslandi með 29 stig en hún spilaði í 35 mínútur í dag. Hún var einnig með níu fráköst, fjórar stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Sara Rún Hinriksdóttir kom næst með fjórtán stig, fimm fráköst og fjórar stoðsendingar. Aðrir leikmenn skoruðu minna en tíu stig.

Ísland vann Danmörku í framlengingu í fyrsta leik sínum á mótinu en töpuðu síðan fyrir Dönum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×