Sport

Kóngurinn á Wimbledon minnir á sig með svakalegu stigi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roger Federer, af mörgum talinn besti tennisspilari sögunnar, komst auðveldlega í 32 manna úrslitin á Wimbledon-risamótinu í gær.

Federer pakkaði Bandaríkjamanninum Sam Querrey saman í þremur settum; 6-4, 6-2 og 6-2, en Querrey er í 36. sæti heimslistans.

Svisslendingurinn hefur verið kóngurinn á Wimbledon á þessari öld og unnið mótið sjö sinnum, jafnoft og Bandaríkjamaðurinn Pete Sampras sem átti sviðið á þessu elsta og virtasta risamóti heims á tíunda áratug síðustu aldar.

Federer hefur ekki gengið sem best á risamótunum í nokkur ár, en í gær minnti hann á sig með rosalegu skot í annarri lotu.

Í stöðunni 4-2 í annarri lotu ákvað hann að lyfta boltanum yfir Querry frá eigin endalínu og gerði það með því að slá boltann á milli fóta sér.

Úr varð eitthvað magnaðasta tennishögg síðari ára, en það eru fáir sem geta slegið svona tennishögg og hvað þá á sjálfu Wimbledon.

Sjón er sögu ríkari, en skotið má sjá eftir eina mínútu í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×