Körfubolti

Helena: Þurftum að koma okkur út úr þessu bulli

Tómas Þór Þórðarson í Laugardalshöll skrifar
Vísir/Daníel
"Þetta var bara stress og spenna í byrjun," sagði stigahæsti leikmaður íslenska liðsins, Helena Sverrisdóttir, við Vísi um skelfilega byrjun Íslands gegn Möltu á Smáþjóðaleikunum í kvöld.

Ísland lenti 10-0 undir og var 32-22 undir í öðrum leikhluta áður en liðið hrökk í gang. Ísland vann á endanum tíu stiga sigur, 83-73.

"Við þurftum bara að koma þessu bulli út í byrjun og svo róaðist þetta og við fórum að spila vörn. Við spiluðum náttúrlega enga vörn í byrjun."

Íslenska liðið tók einn æfingaleik fyrir mótið en þær eru búnar að æfa í nokkrar vikur saman og því var spenna að komast út á gólf.

"Við erum búnar að bíða eftir þessu í svolítinn tíma. Við erum búnar að vera að æfa saman í þrjár vikur og taka einn æfingaleik," sagði Helena.

"Við erum bara búnar að vera að æfa á móti hverri annarri en nú fengum við fyrsta leik og erum komnar af stað. Það er líka spenna að vera að spila hér heima á Íslandi. Það er alltaf sérstakt. Það tók bara smá tíma að koma okkur í gang."

Leikur íslenska liðsins batnaði til muna snemma í öðrum leikhluta, en liðið smellti í lás í vörninni, tók á 13-3 sprett og jafnaði metin fyrir lok fyrri hálfleiks.

"Okkar leikur er þannig að við þurfum að fá stopp og opna völlinn. Þá gengur þetta hjá okkur," sagði Helena.

"Í byrjun var leikurinn ekki eins og við viljum hafa hann. Það var dauður bolti í hvert einasta skipti. Við viljum hafa svolítið opinn völl - þannig blómstrum við."

"Við erum stemningslið og því þurfum við að passa að vera ekki svona mikið upp og niður. Mér fannst við spila bara mjög vel í dag, en við verðum að spila til að verða betri."

Aðspurð hvort íslenska liðið ætli ekki að hefna fyrir ófarirnar í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum og vinna gullið sagði Helena að lokum: "Við ætlum að vinna þetta. Það er stefnan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×