Pescara stendur á barmi endurkomu í ítölsku A-deildina, en það spilar hreinan úrslitaleik við Bologna um sætið eftir markalaust jafntefli í fyrri leiknum.
Leikirnir eru spilaðir á alþjóðlegum leikdögum og er íslenska landsliðið því í fullum rétti að kalla Birki til landsins fyrir undirbúning gegn Tékkum, en strákarnir okkar spila gríðarlega mikilvægan leik gegn þeim í undankeppni EM 2016 á föstudagskvöldið.
Birkir spilaði fyrri leikinn gegn Bologna, en Ísland ákvað svo að nýta sér réttinn og kalla á Birki. Annars hefði hann spilað seinni leikinn annað kvöld og þá átt eftir að fljúga heim og misst af tveimur og hálfum degi í undirbúningnum.
Birkir ritar nokkur orð til stuðningsmanna Pescara á Instagram-síðu sína, þar sem hann segir einfaldlega að skylda kalli heima á Íslandi.
„Skyldan kallar, þó í hjartanu vilji ég vera áfram hérna og klára þetta mikla ævintýri. Það er því með mikilli eftirsjá sem ég segi ykkur að ég verð ekki með í lokaleiknum. En liðið er gott og getur unnið hvern sem er,“ segir Birkir Bjarnason.
Birkir hefur spilað frábærlega fyrir Pescara á tímabilinu, en hann skoraði tíu mörk í 37 leikjum í deildinni og er búinn að skora tvö mikilvæg mörk í úrslitakeppninni um sætið í A-deildinni.