Halldór tók upp símann sinn og náði rútunni á myndband en lögregluþjónn sem kemur á vettvang skipaði Halldóri að hætta myndatökunni samstundis, Halldór birti myndirnar á Facebook síðu sinni og auglýsir eftir afsökunarbeiðni frá lögreglunni enda segist hann hafa verið mjög sleginn eftir atvikið.
Sama rútan var mætt í morgun til að sækja erlenda ferðamenn eins og ekkert hefði í skorist. Fleiri íbúar gagnrýna rútuumferð um þingholtin og telja rétt að setja þeim strangari skorður.

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs segist hafa orðið steinhissa enda ljóst að bílstjórinn megi ekki gera þetta. Hann segir að leita verði skýringa á þessu atviki hjá viðkomandi ferðaþjónustufyrirtæki. Hann gefi sér það að bílstjórinn hafi ekki kunnað reglurnar. Borgin hafi samþykkt í fyrra að mælast til þess að hópferðarbílar lengri en átta metrar væru ekki að keyra um þröngar götur í Þingholtunum. Mikilvægt sé að ferðaþjónustufyrirtæki séu ekki að pirra íbúa að óþörfu.
Sara Stef íbúi á Freyjugötu, segist ekki skilja af hverju bílstjórar geti ekki notað merkt rútubílastæði og látið þröngu götunar í friði. Fólk ætti að vera vant því erlendis frá að fólk sé ekki alltaf keyrt upp að dyrum.
Kári Sölmundarson íbúi á Þórsgötunni segir að mörg dæmi séu um að það slái í brýnu milli íbúa og rútubílstjóra. Það séu rútur á fimmtán mínútna fresti á Þórsgötunni, líka stærri rútur þótt það sé bannað. Einn íbúi hafi brugðist ókvæða við þegar rútu var ítrekað lagt fyrir utan svefnherbergisglugga barnsins hans og spjó þar díselreyk í gríð og erg. Hann sér að bílstjórarnir hafi heldur ekki alltaf verið viðmótsþýðir.
