Fótbolti

Rexach: Guardiola mun snúa aftur til Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola snýr aftur á Nývang á morgun.
Guardiola snýr aftur á Nývang á morgun. vísir/getty
Charly Rexach býst við að Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Bayern München, snúi einhvern daginn aftur til Barcelona.

Rexach hefur gegnt flestum störfum hjá Barcelona sem til eru en hann kom til félagsins árið 1959 þegar hann var 12 ára. Rexach var leikmaður Börsunga í rúm 20 ár og síðan þjálfari og aðstoðarþjálfari liðsins en hann situr í stjórn félagsins í dag.

„Hann mun snúa aftur fyrr en seinna, í hvaða hlutverki sem það verður. Guardiola er hluti af Barcelona eins og Franz Beckenbauer er hluti af Bayern München,“ sagði Rexach en Barcelona og Bayern mætast á Nývangi á morgun í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Guardiola stýrir liði gegn Barcelona sem hann lék með í mörg ár og þjálfaði síðan með frábærum árangri á árunum 2008-2012.

„Þetta verður erfitt fyrir alla hlutaðeigandi, aðallega Pep sem er að snúa aftur á æskuslóðirnar, en einnig fyrir stuðningsmennina sem dýrka og dá Pep,“ sagði Rexach sem átti hvað stærstan þátt í að fá Lionel Messi til Barcelona á sínum tíma.

Guardiola á eitt ár eftir af samningi sínum við Bayern en hann hefur gert liðið að Þýskalandsmeisturum síðustu tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×