Innlent

Fólkið þakkaði fyrir sig með því að stela pokanum

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Franskir ferðamenn stálu poka með varningi úr fríhöfninni
Franskir ferðamenn stálu poka með varningi úr fríhöfninni vísir/anton
Guðrún Karólína Guðjónsdóttir og móðir hennar áttu sér einskis ills von þegar þær buðu frönsku pari far til Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli í gær. Eftir að hafa skutlað þeim á tjaldstæðið í Laugardalnum áttuðu þær sig á því parið hafði haft á brott með sér poka með varningi sem móðir Guðrúnar keypti í Leifsstöð.

„Mamma þurfti að koma við í Heklu, ég skutla henni þangað og skutla svo ferðamönnunum í Laugardalinn. Þegar ég sæki mömmu þá áttuðum við okkur á þessu,“ segir Guðrún. Þær mæðgur fóru aftur niður í Laugardal og fengu þær fréttir að parið hefði keypt sér tjaldstæði og væri að tjalda. Þær fóru út að leita að þeim en franska parið var hvergi sjáanlegt.

„Þetta var ekki það dýr varningur kannski 10.000 krónur. Bara einhverjar rauðvíns flöskur og sælgæti, en þetta er bara svo hallærislegt. Þetta er svo lítið land, þau eru náttúrulega svolítið vitlaus ef þau halda að þau geti gert þetta,“ sagði Guðrún í samtali við Vísi í morgun en hún birti stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún lýsti yfir vonbrigðum sínum með athæfið.

Síðdegis í dag uppfærði Guðrún færsluna á Facebook. Hún segir starfsfólkið á farfuglaheimilinu í Laugardalnum hafa talað við parið, þau sáu að sér og skiluðu pokanum. Allt er gott sem endar vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×