Ólafur Ragnar Grímsson og Hilmar Veigar ræddu tölvuleikjaiðnaðinn á íslenskri tölvuleikaráðstefnu í dag.mynd/halldóra ólafs
Tölvuleikjaráðstefnan Slush Play Reykjavík var haldin í fyrsta sinn í dag í Gamla bíó. Ráðstefnan er haldin að finnskri fyrirmynd en meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna í dag voru Hilmar Veigar, forstjóri CCP, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Hilmar Veigar, forstjóri CCP.mynd/halldóra ólafsÍ opnunarræðu ráðstefnunnar talaði Hilmar um mikilvægi þess að ungir sprotar hér á landi fái tækifæri til að hitta fjárfesta og erlenda fjölmiðla á ráðstefnu sem þessari, þar sem oft og tíðum sé ekki til fjármagn til að ferðast um heiminn á fyrsta stigi nýsköpunar.
Þá talaði hann um hvernig fjölmörg ný fyrirtæki urðu til sem afsprengi fyrirtækisins OZ frá því á tíunda áratug síðustu aldar. „Oftar en ekki, þegar það komu hindranir í sögu OZ, urðu til góðar hugmyndir sem sumar urðu til þess að ný fyrirtæki urðu til. Reynslan sem varð til á þessum árum, samstarf fólks og sagan skipti miklu máli í hvernig iðnaðurinn hefur þróast,“ sagði hann.
„Þessi margföldunaráhrif eru mikilvæg þegar við horfum til iðnaðarins og hvernig við viljum sjá hann vaxa inn í framtíðina,“ sagði Hilmar.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.mynd/halldóra ólafsÓlafur Ragnar sagði að íslenski tölvuleikjaiðnaðurinn hefði sannað að Ísland gæti verið mikilvæg þjóð í nýjum sagnarheimi tölva og hátækni. „Fjölmörg íslensk leikjafyrirtæki hafa skapað sér nöfn á alþjóðarvísu, og eru orðin leiðandi á sínu sviði. Ástæðan fyrir því að mínu mati má rekja til þess að við höfum í arfleifð okkar hæfileika til að segja sögur, og tölvuleikur er í raun og veru ef tekin er öll tæknin úr iðnaðinum, nútímalegt sagnaform,“ sagði hann.
„Í öðru lagi, þá gerir smæð þjóðarinnar það að verkum að við vinnum þétt saman þvert á fög og iðnaði. Listamenn ræða við viðskiptafólk. Tölvuforritarar við markaðsfólk. Sökum þess hversu fá við erum þá verður landið einskonar suðupottur nýrra hugmynda,“ sagði forsetinn.