Áhöfnin á varðskipinu Tý aðstoðaði dráttarskip við björgun flóttafólks í gær út af ströndum Líbýu. Þegar nýbúið var að taka flóttafólkið um borð í dráttarskipið kom á vettvang hraðbátur og var skotið úr honum í loftið.
„Áhöfn hraðbátsins skaut nokkrum skotum upp í loftið, að því er virðist í þeim tilgangi að hræða flóttafólkið. Fóru þeir síðan á brott með bát flóttafólksins með sér en flóttamennirnir voru þá allir komnir um borð í dráttarskipið.“ Þetta kemur fram á vef Landhelgisgæslunnar.
Svo virðist sem að mennirnir í hraðbátnum hafi ekki verið ánægðir með björgun flóttafólksins. Þegar þetta átti sér stað var Týr í um sjómílu fjarlægð frá dráttarbátnum. Áhöfnin heyrði skothríðina og fylgdist með atburðarrásinni.
Týr er nú á leið til Taranto á Ítalíu með 342 flóttamenn sem áhöfnin bjargaði fyrr í gær. Yfirleitt er farið með flóttafólk til Sikileyjar, en þar eru allar flóttamannabúðir orðnar yfirfullar.
Á vef gæslunnar segir að Varðskipið Týr hafi, ásamt öðrum skipum og flugvélum á vegum Frontex, bjargað um 7.500 manns síðan á föstudag. Þá hafa ellefu lík flóttamanna fundist á svæðinu, þar af níu frá einum bát sem hvolfdi. Allar aðgerðirnar áttu sér stað um 12 til 60 sjómílur frá strönd Líbýu.
Týr aðstoðaði við björgun flóttafólks
Samúel Karl Ólason skrifar

Mest lesið




Ofbýður hvað Reykjavík er ljót
Innlent






Ása Steinars vann sigur gegn bandarísku markaðsfyrirtæki
Viðskipti erlent