Sport

50. titill Djokovic eftir sigur á Federer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Novak Djokovic með sigurlaunin sín í gær.
Novak Djokovic með sigurlaunin sín í gær. Vísir/Getty
Novak Djokovic fagnaði sigri á Indian Wells-mótinu í Kaliforníu, einu stærsta tennismóti hvers tímabils eftir að hafa lagt Roger Federer að velli í úrslitaleiknum, 6-3, 6-7 og 6-2.

Þetta er hans fjórði sigur á mótinu og 50. titill hans á ferlinum. Federer hefði bætt met með sigri á mótinu en hann hefur unnið þetta mót fjórum sinnum á ferlinum.

Djokovic hóf árið á því að vinna Opna ástralska meistaramótið en hann vann einnig Wimbledon-mótið í fyrra og er í efsta sæti heimslistans. Hann vann Andy Murray auðveldlega í undanúrslitunum á laugardag.

Miðað við gengi hans í ár virðast fáir hafa getuna til að stöðva Djokovic en hlutirnir eru oft fljótir að breytast þegar byrjað er að keppa á leir og Opna franska meistaramótinu, sem fer fram í vor.

„Ég er á hátindi ferilsins og ætla að nýta það til berjast um eins marga stóra titla og ég get. Ég nýt þess og lít á það sem forréttindi vegna þess að þetta er eitthvað sem ég vann mér inn.“

Aðeins níu tenniskappar hafa unnið fleiri titla en Djokovic á ferlinum en Djokovic hefur unnið alls tíu stórmót til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×