Markmiðið var að komast í úrslit
„Ég veit það ekki alveg,“ sagði Aníta í samtali við Fréttablaðið í gær, aðspurð hvað henni fyndist um úrslitahlaupið.
„Aðalmarkmiðið var komast í úrslit og ég er ánægð að hafa náð því. Maður verður að reyna sig gegn þeim bestu á stórmótum og ég er alveg að komast í þennan klassa. Allar stelpurnar í úrslitunum eru sterkar og jafnar og það gat allt gerst,“ bætti Aníta við.
Aníta segir að reynslan frá EM í Prag muni nýtast vel í framtíðinni: „Ég er ánægð með mótið í heild sinni og þetta var skemmtileg reynsla. Ég verð með meira sjálfstraust á næsta móti.“
Aníta náði forystu í úrslitahlaupinu á fyrsta hring en gaf aðeins eftir á lokasprettinum og endaði að lokum í fimmta og neðsta sæti. Aníta kom í mark á 2:02,74 mínútum en Íslandsmetið, sem hún setti í undanrásunum á föstudaginn, er 2:01,56 mínútur. Sá tími var sá næstbesti sem náðist á EM í Prag, en sú eina sem náði betri tíma var áðurnefnd Poistogova, bronsverðlaunahafi frá síðustu Ólympíuleikum.
Poistogova var í sama riðli og Aníta í undanrásunum en sú rússneska kom í mark á tímanum 2:01,44, tólf hundraðshlutum úr sekúndu á undan Anítu. Þær mættust svo aftur í úrslitunum.

Hlaup sem þessi eru oftar en ekki mjög taktísk, þar sem keppendur reyna að stjórna hraðanum þannig að þeir eigi nóg eftir á tankinum fyrir endasprettinn.
„Það gerist mest á síðustu 70 metrunum og ég hélt ekki alveg fókus undir lokin,“ sagði Aníta og bætti því við að á þessum tímapunkti á ferli hennar væri sú taktík að keyra upp hraðann sú öruggasta.
Önnur hlaupakona sem er þekkt fyrir að keyra upp hraðann og taka frumkvæði er hin breska Jenny Meadows sem vann til gullverðlauna á EM innanhúss árið 2011. Meadows var í sama riðli og Aníta í undanúrslitunum og kom fjórða í mark á tímanum 2:02,40, níu hundraðshlutum úr sekúndu á eftir Anítu sem endaði í þriðja sæti.
Staðan breyttist hins vegar eftir að undanúrslitunum lauk. Fyrst var hin rússneska Anastasiya Bazdyreva dæmd úr leik fyrir að stíga út af hlaupabrautinni þegar hún tók fram úr Anítu á lokasprettinum. Sjálf sagðist Aníta ekki hafa tekið eftir því í hita augnabliksins og atvikið hafi ekki truflað hana neitt.
Bretar kærðu niðurstöðuna og Bazdyreva var í kjölfarið dæmd úr leik. Aníta færðist því upp í annað sætið og Meadows upp í það þriðja og komst þar með í úrslitin. En stuttu fyrir úrslitahlaupið dró sig Meadows út úr keppni vegna veikinda. Þetta breytta landslag hafði áhrif á það hvernig Aníta nálgaðist hlaupið.
„Hún vill keyra upp hraðann og það hefði verið þægilegt að hanga fyrir aftan hana,“ sagði Aníta sem á eftir að vinna meira í taktíkinni á næstu mánuðum. En hvað tekur nú við hjá þessari efnilegu hlaupakonu sem nálgast toppinn óðfluga?
„Nú ætla ég að hvíla mig aðeins og síðan taka við æfingabúðir fyrir sumarið,“ sagði Aníta að lokum.