Apple varð í gær fyrsta fyrirtæki sögunnar þar sem heildarvirði hlutabréfa fór yfir 700 milljarða dollara, jafngildi 92.715 milljarða íslenskra króna. Við lok viðskipta í gær var heildarvirði hlutabréfa í Apple 710 milljarðar dollara, það eru 94.000.000.000.000 íslenskar krónur.
Miðað við núverandi hlutabréfaverð í Apple er fyrirtækið verðmætara en Google, Bank of America, McDonalds og Twitter til samans. Síðan Apple var fyrst sett á markað í desember árið 1980 hefur heildarvirði hlutabréfa í fyrirtækinu hækkað um 50.600%. Wall Street Journal greinir frá.
Tim Cook, forstjóri Apple, sagði að þrátt fyrir viðvaranir um að kínverskir neytendur myndu ekki kaupa jafn dýra vöru og iPhone síma ætti mikil sala í Kína stóran þátt í velgengni fyrirtækisins að undanförnu. „Þetta er bara kjaftæði, þetta er ekki satt,“ sagði Tim Cook, á tækni og internet ráðstefnu Goldman Sachs í San Francisco á þriðjudag. Apple seldi á síðasta ársfjórðungi fleiri snjallsíma í Kína en nokkur annar framleiðandi þrátt fyrir að selja dýrari vöru en helstu keppinautar.
