Sport

Virðist ekki hafa viljað keppa við Ísraelsmann

Malek Jaziri.
Malek Jaziri. vísir/getty
Alþjóða tennissambandið er nú að skoða afar sérstakt mál sem kom upp á móti í Frakklandi í gær.

Þá dró Túnisbúinn Malek Jaziri sig úr leik eftir eitt sett gegn Denis Istomin frá Úsbekistan. Hann sagðist vera meiddur. Jaziri vann fyrsta settið.

Ef Jaziri hefði unnið leikinn þá hefði hann þurft að mæta Ísraelanum Dudi Sela í næstu umferð. Ekki er víst að hann hafi viljað það eða hreinlega mátt gera það.

Það er nefnilega innan við tvö ár síðan að tennissamband Túnis skipaði Jaziri að draga sig úr móti þar sem hann átti að keppa við Ísraela. Það er ekki mjög hlýtt á milli þjóðanna. Túnis var í kjölfarið sett í bann í Davis-bikarnum.

Nú er verið að rannsaka hvort Jaziri hafi raunverulega verið meiddur eða hvort honum hafi aftur verið skipað að draga sig úr móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×