Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir útilokað að samið verði um frekari skuldaniðurfellingu við Grikki. Þetta segir Merkel í viðtali við þýska dagblaðið Hamburger Abendblatt.
Gríska ríkið skuldar 315 milljarða evra, eða um 175 prósent af vergri landsframleiðslu, þrátt yfir mikinn niðurskurð á síðustu árum.
Nýkjörinn forsætisráðherra Grikklands Alexis Tsipras hefur lýst því yfir að hann vilji að helmingur allra skulda gríska ríkisins verði afskrifaður.
Merkel segir að hún vilji ekki að Grikkir yfirgefi evrusamstarfið en segir hins vegar mikilvægt að þeir standi við sínar skuldbindingar.
