Körfubolti

Craig Pedersen: Vel ekki endilega þá fjórtán bestu á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna hér sæti á EM síðasta haust.
Íslensku strákarnir fagna hér sæti á EM síðasta haust. Vísir/Anton
Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, ætlar að setja saman rétta hópinn fyrir lokakeppni Evrópumótsins í körfubolta og þar verða því ekki endilega fjórtán bestu leikmenn landsins.

„Þetta verður erfitt. Ég er búinn að hugsa mjög mikið um þetta nú þegar. Það þarf að hugsa til margra þátta, og kannski verða nokkrir leikmenn í lokahópnum sem teljast ekki endilega til fjórtán bestu körfuboltamanna landsins, en henta þeirri samsetningu sem við viljum," sagði Craig Pedersen í viðtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í morgun.

„Það er alveg ljóst að einn maður kemur nýr inn í hópinn frá því í fyrra og það er Jakob Örn Sigurðarson. Hann var í lykilhlutverki í sigrinum á Rúmeníu og fjölmörg ár þar á undan en taldi nauðsynlegt að taka frí síðasta sumar. Hann er í mjög háum gæðaflokki. Ég hef rætt við hann um að spila og hann er klár, svo að ef hann meiðist ekki þá verður hann í lokahópnum," sagði Pedersen við Sindra.

Pedersen ætlar að fara með sitt sterkasta lið á Smáþjóðaleikanna sem fara fram Íslandi í byrjun júní en Ísland hefur oftar en ekki verið með hálfgert varalið á þeim.

Íslenska liðið spilar síðan tvo æfingaleiki við Hollendinga í Laugardalshöllinni í ágúst og fer síðan á tvö æfingamót áður en farið verður á lokakeppnina í Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×