Vegunum um Hellisheiði og Þrengslin hefur verið lokað sem og vegunum um Sandskeiði og undir Ingólfsfjalli. Talsverður vindur er á svæðinu og skyggni slæmt.
Þá beinir björgunarsveitin í Vík í Mýrdal þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferð að óþörfu. Björgunarsveitarfólk var að störfum á brúnni yfir Múlakvísl þar sem erlendir ferðamenn voru fastir og gert er ráð fyrir að fleiri séu fastir á svæðinu.
Víða um land er hálka, skafrenningur, snjóþekja eða samblanda af þessu þrennu og ökumenn beðnir um að aka með gát. Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum en þó er þæfingsfærð og skafrenningur á Klettshálsi og Hjallhálsi.
Ökumenn á Siglufjarðarvegi eru beðnir um að aka varlega vegna jarðsigs á leiðinni.
Vegum á Suðurlandi lokað
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
