Fótbolti

Strákarnir eru lentir í Orlando

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ögmundur Kristinsson í síðasta vináttuleik liðsins sem var á móti Belgíu.
Ögmundur Kristinsson í síðasta vináttuleik liðsins sem var á móti Belgíu. Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið er komið til Orlando í Bandaríkjunum en liðið mætir Kanadamönnum í tveimur vináttulandsleikjum á næstu sex dögum en þeir fara báðir fram á á háskólavelli University of Central Florida. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Fyrri leikurinn við Kanada verður föstudaginn 16. janúar en sá síðari mánudaginn 19. janúar. Báðir leikirnir í beinni útsendingu hjá SkjáSport en stöðin sýndi einnig vináttuleik Íslands og Belgíu fyrir áramót.

Íslensku leikmennirnir komu að venju víða að en að þessu sinni kom allur hópurinn saman í Leifsstöð fyrir brottför til Bandaríkjanna, bæði hópurinn sem kom frá Íslandi og leikmennirnir sem komu frá Skandinavíu.

Mikið er um forföll í íslenska hópnum enda fara leikirnir ekki fram á opinberum landsleikjadegi og því fengu fullt af fastamönnum í liðinu ekki leyfi til að fara með.

„Flugið til Orlando tók átta tíma og voru menn fegnir að komast inn á hótel um ellefu klukkutímum eftir að lagt var stað frá Íslandi.  Dagurinn var þá orðinn langur ekki síst fyrir þá leikmenn sem flugu frá Skandinavíu.  Kristinn Steindórsson hitti svo hópinn á hótelinu en hann leikur með Columbus Crew í MLS deildinni í Bandaríkjunum," segir í frétt á heimasíðu KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×