Erlent

Upplifir að fólk sé reitt frekar en óttaslegið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar var í lestinni á leiðinni í frönskutíma þegar Vísir náði tali af honum. Hann sagði lestina troðfulla af fólki en að allir væru rólegir.
Gunnar var í lestinni á leiðinni í frönskutíma þegar Vísir náði tali af honum. Hann sagði lestina troðfulla af fólki en að allir væru rólegir. Vísir
Gunnar Örn Stephensen er í frönskunámi í París. Hann segir upplifun sína þá að fólk í borginni sé frekar reitt heldur en óttaslegið vegna atburða síðustu daga.

„Það eru lögreglumenn á stærstu lestarstöðvum í borginni sem og á stærstu ferðamannastöðunum. Ég verð samt ekki mikið var við þetta og mér finnst eins daglegt líf hérna sé ekki farið úr skorðum. Mér finnst ég allavega öruggur í borginni,“ segir Gunnar.

Hann var í lestinni á leiðinni í frönskutíma þegar Vísir náði tali af honum. Hann sagði lestina troðfulla af fólki en að allir væru rólegir.

Mikil lögregluaðgerð stendur nú yfir í Dammartin-en-Goële, 35 kílómetra norðaustur af París. Kouachi-bræðurnir, sem grunaðir eru um árásina á skrifstofur Charlie Hebdo, með minnst einn gísl í haldi í prentsmiðju í bænum.

Þá er minnst einn vopnaður gíslatökumaður með minnst fimm manns í gíslingu í Porte de Vincennes í austurhluta Parísarborgar. Franska innanríkisráðuneytið hefur borið til baka fregnir um að tveir hafi látist.

Óstaðfestar fréttir herma að sá maður sem staðfest er að sé inni í búðinni sé sá hinn sami og drap lögreglukonuna Clarissa Jean-Philippe, 26 ára, í suðurhluta Parísar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×