Skoðun

Inn um bakdyrnar á náttúrupassa

Ögmundur Jónasson skrifar
Náttúrupassi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur ferðamálaráðherra er með furðulegri uppátækjum í íslenskum stjórnmálum síðari tíma. Hugdetta um náttúrupassa kemur fram. Ráðherrann bítur hana í sig, í ljós kemur að þorri manna er henni andvígur en ráðherrann heldur engu að síður staðfastlega áfram göngu sinni inn í hið pólitíska öngstræti þótt augljóst sé að málið muni aldrei fá brautargengi á Alþingi. Og ef svo illa færi að lagafrumvarpið yrði samþykkt yrðu lögin engu að síður andvana fædd því almennt myndu Íslendingar ekki festa kaup á þessum passa. Sama fólk sem án efa greiddi með ánægju gjald eða skatt til verndar íslenskri náttúru myndi aldrei undirgangast passaskoðun til að ganga inn á Þingvelli. Það krefst ekki mikillar ígrundunar að skynja þetta.

En er þar með sagan öll sögð? Ekki alveg. Ferðamálaráðherra virðist vilja hugnast þremur aðilum: Icelandair og öðrum flugrekstraraðilum sem ekki vilja að sett verði komugjald á ferðamenn til að fjármagna náttúruvernd, hóteleigendum sem ekki vilja gistináttagjald og síðast en ekki síst landeigendum sem vilja fá að rukka sjálfir beint og ofan í eigin vasa.

Þegar rukkað var við Kerið, Geysi, Leirhnjúk og í Námaskarði síðastliðið sumar sagði ferðamálaráðherra ekki orð gegn þessu framferði, jafnvel þótt Umhverfisstofnun hefði sagt hið augljósa að þetta væri lögleysa. Ragnheiður Elín lýsti því meira að segja yfir að sér þætti gjaldheimtan í Kerinu takast sérlega vel! Við þetta fengu skráðir eigendur Kersins án efa aukið sjálfstraust enda innheimtu þeir nú ránsfeng sinn undir blaktandi fána lýðveldisins og sögðu engan mann hafinn yfir einkaeignarrétt þeirra!

Náttúrupassinn er bakdyraleiðin til að gera innheimtu fyrir aðgang að íslenskri náttúru eðlilega, „náttúrulega“.

Íslensk náttúra á að vera allra að njóta. Náttúrupassinn er bakdyraleiðin til að gera hana að prívat gróðalind. Það má aldrei gerast.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×