Skoðun

Hærra matvöruverð heimilum til hagsbóta?

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Fullt tilefni er til að setja fyrirvara við áhrif þeirra breytinga sem til stendur að gera á virðisaukaskatti og vörugjöldum. Samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytis eiga breytingarnar í heild að lækka vísitölu neysluverðs og þannig skila heimilunum meira ráðstöfunarfé. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að skattbreytingarnar, bæði hækkanir og lækkanir, skili sér að fullu út í verðlagið. Erfitt er þó að spá um með nokkurri vissu hvaða áhrif breytingarnar munu raunverulega hafa.

Áhrifum gengisbreytinga á verðlag má á margan hátt líkja við fyrirhugaðar breytingar á sköttum og innflutningsgjöldum. Um utanaðkomandi áhrif er að ræða sem virka á sama hátt á alla aðila og gefa vísbendingar um hvernig skattbreytingar færast út í verðlag. Í rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar frá 2011 er þetta kannað og þar kemur skýrt fram að styrking krónunnar hafi minni áhrif á verðlag en veiking hennar. Ef þessar niðurstöður eru yfirfærðar á fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar bendir margt til þess að skattahækkanir á neðra þrepi muni skila sér mun betur út í verðlag en skattalækkanir efra þrepsins og afnám vörugjalda.

Markmiðin bresta

Áhrif gengisbreytinga skila sér samkvæmt sömu rannsókn best í verðlagningu matvara. Veiking krónunnar skilar sér að fullu og styrking skilar sér að tveimur þriðju hlutum. Verð matvöru hækkar því í fullu samræmi við gengishækkanir en lækkanir skila sér ekki nema að tveimur þriðju. Þegar kemur að heimilistækjum og byggingavörum skilar veiking krónunnar sér að fullu en áhrif af styrkingu eru mun minni.

Því eru sterkar vísbendingar um að hækkanir skili sér hratt út í verðlag en lækkanirnar mun síðar. Þar sem fyrrgreindar skattbreytingar virka á margan hátt svipað og gengisbreytingar gefur samanburðurinn sterkar vísbendingar um raunveruleg áhrif skattbreytinganna á verðlag.

Margt bendir því til að skattahækkanir muni skila sér að fullu út í verðlag en lækkanir skili sér takmarkað. Áhrifin gætu þannig orðið hækkun vísitölu neysluverðs í stað fyrirhugaðrar lækkunar. Um leið bresta markmið breytinganna um aukið ráðstöfunarfé til heimilanna og það eina sem eftir stendur er hærra matvöruverð. Það er því fullt tilefni til að hafa efasemdir um að fyrirhugaðar skattbreytingar muni koma heimilunum til góða.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×