Nóg er að gera fyrir launmorðingja í París og eru viðburðir þéttir á gríðarlega stóru kortinu. Þó eru viðburðir sem ekki er hægt að taka þátt í án þess að greiða fyrir það aukalega eða nota snjallsímaforrit. Það er allt gott og blessað við það að greiða aukalega fyrir að efni sé bætt við leikinn. Að geta ekki opnað kistu sem þegar er í leiknum, án þess að taka upp kreditkortið, er of langt gengið.
Þá hefur bardagakerfi leiksins einnig verið breytt og er það nú erfiðara en áður og minnir á fyrsta Assassins Creed-leikinn og ævintýri Altaïr. Klifrið og frjálsa hlaupið hefur einnig fengið andlitslyftingu og virkar nú betur en áður.
Þó kemur fyrir að maður stendur fastur upp á til dæmis borði og kemst ekki af því á meðan skotmarkið hleypur í burtu. Þegar leikurinn kom fyrst út varð hann fyrir mikilli gagnrýni vegna svokallaðra „glitcha“ þar sem leikmenn urðu vitni af andlitum fólks í leiknum hverfa og að aðrir gengu inn í veggi. Mikið af þeim göllum hafa verið lagaðir með uppfærslu og Ubisoft hefur lofað að laga þá alla innan skamms.
Fjöldinn allur af vopnum og fatnaði er í leiknum og hægt að einbeita sér að mismunandi tegundum vopna eins og spjótum, öxum og riflum. Sé tillit tekið til alls, þá er endurspilunargildi Unity töluvert, þar sem hægt er að spila með allt öðrum áherslum í mörg skipti.

Aðdáendur seríunnar ættu ekki að láta Unity fara fram hjá sér, en þó ættu þeir ekki að vonast eftir miklum svörum við þeim stóru spurningum sem eru uppi í hinum flókna Assassins Creed-heimi. Þetta ferðalag til Parísar ætti ekki að valda vonbrigðum og þá sérstaklega fyrir þá sem þegar hafa heimsótt Jerúsalem, Boston, Flórens, Róm og Karíbahafið.